Styrkleikar & draumar
Forvinna verkefnis
Samtal milli kennara og nemenda:
Það fyrsta sem þarf að gera með nemendum er að ræða um styrkleika, hvað það sé og hvort þeir geti sagt þér frá nokkrum sem þeir sjálfir búa yfir. Reynsla mín er sú að því yngri sem nemendur eru því óhræddari eru þeir að segja að þeir séu góðir í hinu og þessu en með hækkandi aldri fer hræðsla að gera vart um sig að segja upphátt hvort þú sért góður að syngja, teikna eða í fótbolta. Börn verða meira var um sig og er þá þörf á þjálfun í að greina hvar styrkleikarnir þeirra liggja ásamt því að eiga samtalið um að það sé í lagi að segja upphátt hverju maður trúi að maður sé góður í og hvaða eiginleika maður búi yfir. Það sé ekki hroki né teljist það mont.
Styrkleikaspilið:
Forvinna verkefnis er að kynna og leggja fyrir nemendur Styrkleikaspilið. VIA-strenght er þekkt styrkleikapróf með 24 skilgreindum styrkleikum. Þeir sem birtast efst eru helstu styrkleikar einstaklingsins sem tekur prófið. Það þýðir ekki að sá einstaklingur hafi ekki alla hina styrkleikana, þeir eru bara ekki eins greinilegir. Spilið er unnið út frá lýsingu VIA-strength og þýtt af Lilju Mörtu Jökulsdóttur. Þá fylgja leiðbeiningar um hvernig vinna megi með spilið (Menntastefna Reykjavíkurborgar,2023).
Nemendur velja í samtali við kennara þá þrjá styrkleika sem þau telji ríkasta hjá sér. Í sama samtali milli kennara og nemenda eru skráðir þrír framtíðardraumar nemendans.
Vinnsla plakats
Kennari tekur ljósmynd af nemanda þar sem hann lætur líkt og hann sé að öskra og er myndin prentuð út í A4 eintaki.
Nemandi klippir út haus sinn og límar á plakat sem kennari lætur hann fá.
Teiknað er búkur fyrir neðan haus og fyllir nemandi hann með ýmsum úrklippum í sinni tjáningu.
Nemandi klippir út stafi úr tímaritum og límir orð styrkleika sína komandi úr munni sínum.
Fyrir ofan haus klippir nemandi út útlínur skýs og límir orð framtíðardrauma sinna inn í þau.
Verk er hengt upp á vegg í heimastofu.
Stafræn útgáfa
Ef verk er unnið í stafrænt þarf nemandi aðgang að spjaldtölvu og forriti eins og Canva (Canva.com) eða Picsart.
Nemandi tekur mynd af sér líkt og hann sé að öskra.
Nemandi hleður mynd af sér í Canva forritið.
Nemandi vinnur verk í sama stíl og ferli plakats segir til um.
Tilgangur verkefnis
Markmið mitt var að skoða hvort að munur væri á yngsta og elsta stigi grunnskólans þegar kæmi að sjálfsmati nemenda og færni þeirra til að greina og sjá eigin styrkleika ásamt því að skoða hvernig hægt sé að kenna þeim færni í að styrkja þennan þátt í gegnum nám þeirra. . Tilgangur verkefnis er að styrkja nemendur í sýn sinni á sjálfum sér ásamt því að gefa þeim gleraugu framtíðar sinnar hvert þau vilji stefna.
Í Aðalnámskrá grunnskóla (2013) kemur fram að í myndmennt öðlast nemendur tækifæri til að læra og tjá sig án orða. Þeir geta ýmist unnið á gagnrýninn hátt með málefni daglegs lífs eða með ímyndunaraflið. Slík reynsla veitir nemendum forsendur til að læra að þekkja sjálfa sig bæði í tengslum við náttúruna og efnisheiminn. Skilningurinn verður bæði almennur og persónulegur, byggður á rannsóknum á raunveruleikanum og töfrum ímyndunaraflsins.