Aðalnámskrá grunnskóla
Menntun í list- og verkgreinum getur stuðlað að bættu siðferði og þjóðfélagslegri ábyrgð nemenda. Þær eru vettvangur menntunar til sjálfbærni þar sem nemendur vinna með samábyrgð, tilfinningar sínar og annarra, samhengi við aðra menningarheima og eigið umhverfi og náttúru. Er það grunnur að velferð þeirra og virkni í mótun samfélagsins.
Megintilgangur með námi í list- og verkgreinum í grunnskóla er að allir nemendur kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á verkkunnáttu, sköpunarkraft, samhæfingu hugar, hjarta og handar og margar, ólíkar tjáningarleiðir. Þar fá þeir tækifæri til að skapa hluti í handverki, vinna með tákn, tóna, matarmenningu og líkamann í tíma og rúmi og tengja þannig milli hugmyndar, verka og hluta. Allt þetta þroskar og eykur hæfni fólks til að tengja milli hlutbundinnar og óhlutbundinnar hugsunar og takast á við síbreytilegan heim á persónulegan, gagnrýninn og skapandi hátt. Jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms stuðlar að jafnrétti nemenda til að finna hæfileikum sínum farveg.
Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Allir hlutir og öll verk byrja með hugmynd sem ekki verður virk nema henni sé miðlað á einhvern hátt. Í námsgreininni myndmennt er unnið með alla miðla sjónlista þar sem hugmyndum er fundinn farvegur. Frá fornöld hafa sjónlistir haft félagsleg, fagurfræðileg og tilfinningarleg áhrif á fólk. Að rýna í listaverk hjálpar okkur að skilja sögu, menningu og samfélagið í heild á sama tíma og það hjálpar okkur að eflast sem persónur.
Í myndmennt öðlast nemendur tækifæri til að læra og tjá sig án orða. Þeir geta ýmist unnið á gagnrýninn hátt með málefni daglegs lífs eða með ímyndunaraflið. Slík reynsla veitir nemendum forsendur til að læra að þekkja sjálfa sig bæði í tengslum við náttúruna og efnisheiminn. Skilningurinn verður bæði almennur og persónulegur, byggður á rannsóknum á raunveruleikanum og töfrum ímyndunaraflsins.
Þegar nemendur skapa sjónræn verk vinna þeir ýmist frá eigin rannsóknum og greiningu eða með virkjun ímyndunaraflsins þar sem þeir tengja við fyrri reynslu, menningu og umhverfi. Í umræðum um myndlist skapast tækifæri til að þjálfa orðaforða myndlistar, samkennd og umburðarlyndi í tengslum við gagnrýna umræðu um upplifun nemenda á völdum listaverkum og eigin verkum. Með því að tengja við eigin reynslu þjálfast nemendur í læsi á eigið umhverfi. Þessum tengslum er lýst myndrænt hér til hliðar (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013).
Hlekkur á Aðalnámskrá grunnskóla Aðalnámskrá (adalnamskra.is)
Við lok 4. bekkjar getur nemandi:
nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar,
skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum,
tjáð tilfinningar, skoðanir og hugmyndaheim sinn í myndverki á einfaldan hátt,
útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd að myndverki,
unnið út frá kveikju við eigin listsköpun,
þekkt og notað hugtök og heiti sem tengjast lögmálum og aðferðum verkefna hverju sinni,
fjallað um eigin verk og annarra,
þekkt og gert grein fyrir völdum verkum listamanna. Lýst þeim og greint á einfaldan hátt yrkisefnið og lýst þeim aðferðum sem beitt var við sköpun verksins,
greint að einhverju leyti á milli mismunandi aðferða við gerð listaverka,
greint á einfaldan hátt áhrif myndmáls í nærumhverfi hans,
skilið mismunandi tilgang myndlistar og hönnunar.
Við lok 7. bekkjar getur nemandi:
notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,
nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,
tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu,
unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,
byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu,
beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni,
fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur,
gert grein fyrir og fjallað um ýmsar stefnur myndlistar með því að bera saman stíla og tímabil tiltekinna verka og sett þau í það menningarlega samhengi sem þau voru sköpuð,
greint, borið saman og metið aðferðir við gerð margskonar listaverka,
greint og fjallað um áhrif myndmáls í umhverfinu og samfélaginu,
gert grein fyrir margvíslegum tilgangi myndlistar og hönnunar.
Við lok 10. bekkjar getur nemandi:
valið á milli mismunandi aðferða við sköpun, prófað sig áfram og unnið hugmyndir í fjölbreytta miðla,
greint og beitt fjölbreyttum aðferðum og tækni,
tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu og gagnrýni á samfélagið,
sýnt og útskýrt vinnuferli frá hugmynd að lokaverki sem felur m.a. í sér upplýsingaöflun, tilraunir og samtal,
skrásett og sett fram hugmyndir á fjölbreyttan hátt byggðar á eigin ímyndunarafli og / eða rannsókn, myndrænt og/ eða í texta,
notað orðaforða og hugtök til að tjá skoðanir sínar á myndlist og hönnun og fært rök fyrir þeim út frá eigin gildismati,
gagnrýnt af þekkingu, sanngirni og virðingu eigin verk og annarra bæði einn og í samvinnu,
greint, borið saman og lýst ýmsum stílum og stefnum í myndlist og hönnun, bæði á Íslandi og erlendis og tengt það við þá menningu sem hann er sprottinn úr,
greint hvernig samtímalist fæst við álitamálefni daglegs lífs með fjölbreyttum nálgunum sem oft fela í sér samþættingu listgreina,
túlkað listaverk og hönnun með tilvísun í eigin reynslu, nærumhverfi, samtímann, siðfræði og fagurfræði,
gert grein fyrir margvíslegum tilgangi myndlistar og hönnunar og sett hann í persónulegt, menningarlegt og sögulegt samhengi,
greint hvernig sjónrænt áreiti daglegs lífs hefur áhrif á líf okkar og gildismat.
Menntagildi listgreina
Með listum getur maðurinn tjáð og dýpkað tilfinningar sínar og öðlast skilning og reynslu sem ekki verður færð í orð.
Listsköpun opnar einstaklingum fjölbreyttar leiðir til að vinna með hugmyndir, varpa fram spurningum, endurspegla og túlka eigin reynslu og annarra. Þannig þroska nemendur hæfileika sinn og getu til að vega og meta gjörðir sínar og umhverfi með gagnrýnum hætti. Við listsköpun opnast oft ný og óvænt sjónarhorn á hugmyndir og hluti, það losnar um hömlur og kímnigáfa nemenda fær gjarnan notið sín í óvenjulegum og ögrandi verkefnum. Við slíkar aðstæður koma leyndir hæfileikar gjarnan fram og nemendur tengjast innbyrðis á annan hátt en í öðrum greinum.
Listir í sinni fjölbreyttustu mynd í fortíð og nútíð fást við hugtök, hugmyndir og hluti sem tengjast manneskjunni og nánasta umhverfi hennar. Þær hreyfa við okkur á margvíslegan hátt, næra ímyndunarafl og efla fegurðarskyn.
Listupplifun opnar farveg til að skoða og meta eigin gildi og viðhorf, á beinan eða óbeinan hátt, út frá margvíslegum leiðum og miðlum. Í listum geta nemendur rýnt í gildi samfélagsins á ólíkum tímum og mismunandi menningarsvæðum og einnig persónuleg gildi, s.s. gagnvart einstaklingum, fjölskyldu, samfélaginu, vinnu og leik, náttúru og umhverfi, fegurð, ljótleika, ofbeldi og ást.
Menntun í listum á að stuðla að því að nemendur öðlist hæfni til að:
takast á við ófyrirséða framtíð á skapandi hátt,
sjá ný mynstur og hugsa í lausnum,
þroska persónulega tjáningu og smekk.
Menntagildi og megintilgangur list- og verkgreina
Listir og handverk eru svo sterklega samtvinnuð daglegu lífi okkar að oft á tíðum erum við ekki meðvituð um tilvist þeirra og áhrif. Afrakstur lista og handverks einskorðast ekki við listviðburði, sýningar og verkstæði heldur er allt umhverfi okkar og daglegt líf mótað af listum og handverki. List- og verkgreinar geta auðveldað nemendum við lok grunnskóla að gera sér grein fyrir hvar áhugi þeirra liggur og átta sig á atvinnu- og námstækifærum innan starfs- og listnáms.
Í list- og verkgreinum þroska nemendur með sér sjálfstætt gildismat þar sem lögð er áhersla á að kynnast og njóta list- og verkmenningar. Þátttaka og þjálfun í gagnrýnni umræðu um handverk og listir veitir nemendum einnig aðgang að menningarorðræðu samfélagsins. Í skapandi starfi og lausnaleit getur nemandinn haft áhrif á umhverfi sitt og tekið þátt í að móta menninguna.
Að tjá sig myndrænt, í handverki, hreyfingu, leik og tónum er manninum eðlislægt. Afrakstur þess má finna í mannkynssögunni og hefur mótað hana til dagsins í dag. Einstaklingar þurfa að vera meðvitaðir um þessi mótunaröfl innan hvers samfélags til að geta notið þeirra á uppbyggjandi og gagnrýninn hátt samhliða því að nýta þau og þróa áfram, sér og komandi kynslóðum til góðs.
Allir hafa hæfileika til að skapa. Í list- og verkgreinum fá nemendur aðstæður og margvísleg tækifæri til að þroska þann hæfileika, dýpka hann og tileinka sér leiðir til að koma sköpun sinni í verk. Í skapandi starfi fá nemendur tækifæri til að virkja og efla ímyndunarafl sitt, þjálfast í að taka ákvarðanir þar sem þeir vega og meta mismunandi valkosti og sjá afleiðingar af vali sínu. Nemendur þroskast í samvinnu við aðra, efla sjálfstæði sitt og sjálfsþekkingu og finna hæfileikum sínum farveg.
Í list- og verkgreinum tileinka nemendur sér læsi á menningu, ferla, myndir, heilsu, hreyfingu, líkamstjáningu og tilfinningar annarra, svipbrigði, blæbrigði í tungumáli og tónum, tækni og hið manngerða umhverfi.
Listir og verkþekking mynda stóran og fjölskrúðugan atvinnuvettvang. Framfarir á sviði tækni og vísinda eru byggðar á þekkingu og færni sem á rætur í verkmenningu. Þótt tæki og vélar hafi leyst manninn af hólmi við ýmis störf er þekking á verkferlum, táknfræði, skipulagi og verkaskiptingu nauðsynleg undirstaða tæknilegrar og listrænnar þróunar. Slík verkfærni samhliða listfengi er því nauðsynleg undirstaða í allri þróun, fagurfræði og hönnun véla, húsa, fatnaðar og allra hluta og listaverka sem við notum og njótum í daglegu lífi. Sú færni og þekking getur nýst á skapandi hátt bæði í starfi sem og tómstundum. Mikilvægt er að nemendur geti tengt nám í list– og verkgreinum við þá fjölmörgu atvinnumöguleika sem þeim tengjast.
Nemendur fá einstakt tækifæri til að kynnast og viðhalda eigin menningu og verklagi fyrri tíma, hlúa að menningararfleifð sinni samhliða því að kynnast öðrum menningarheimum. Þar er kjörinn vettvangur til að skoða ólíka menningarheima út frá sögu þeirra, lýðræði og mannréttindum og auka þannig umburðarlyndi og skilning á fjölbreytileika heimsins.
Menntun í list- og verkgreinum getur stuðlað að bættu siðferði og þjóðfélagslegri ábyrgð nemenda. Þær eru vettvangur menntunar til sjálfbærni þar sem nemendur vinna með samábyrgð, tilfinningar sínar og annarra, samhengi við aðra menningarheima og eigið umhverfi og náttúru. Er það grunnur að velferð þeirra og virkni í mótun samfélagsins.
Megintilgangur með námi í list- og verkgreinum í grunnskóla er að allir nemendur kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á verkkunnáttu, sköpunarkraft, samhæfingu hugar, hjarta og handar og margar, ólíkar tjáningarleiðir. Þar fá þeir tækifæri til að skapa hluti í handverki, vinna með tákn, tóna, matarmenningu og líkamann í tíma og rúmi og tengja þannig milli hugmyndar, verka og hluta. Allt þetta þroskar og eykur hæfni fólks til að tengja milli hlutbundinnar og óhlutbundinnar hugsunar og takast á við síbreytilegan heim á persónulegan, gagnrýninn og skapandi hátt. Jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms stuðlar að jafnrétti nemenda til að finna hæfileikum sínum farveg (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013) Aðalnámskrá (adalnamskra.is).
Kennsluhættir og námsmat í list- og verkgreinum
List- og verkgreinar í grunnskóla greinast í listgreinar, sem eru sviðslistir (dans, leiklist), sjónlistir og tónmennt, og verkgreinar; hönnun og smíði, heimilisfræði og textílmennt. Áherslur og hugmyndafræði list- og verkgreina í skólum eru byggðar á fjórum þáttum sem fléttast saman á órjúfanlegan hátt á mismunandi stigum.
Þekkingaröflun / hugmyndavinna.
Framkvæmd
Greining
Samhengi
Þekkingaröflun og hugmyndavinna snýr að undirbúningsvinnu og tækniþjálfun. Nemendur viða að sér upplýsingum og efni, kanna, rannsaka, prófa, ímynda sér, læra tækni, forma, taka áhættu sem skerpir eigið þor og traust bæði til viðfangsefnisins og eigin hugmynda.
Framkvæmd felur í sér að nemendur beita aðferðum þar sem þeir umbreyta, túlka, flytja, sýna, prófa, forma og framleiða.
Greining felur í sér að nemendur dýpka skilning sinn og upplifun með umræðu, tjáningu og mati. Nemendur greina, yrða, meta, virða, gagnrýna, bera saman, túlka, ígrunda og rannsaka.
Samhengi felur í sér að setja ferlið í sögulegt, menningarlegt, persónulegt og félagslegt samhengi. Nemendur yrða, meta, ígrunda, skipuleggja/endurskipuleggja, smíða kenningar, þroskast og breytast.
Hæfniviðmið í hverri námsgrein eru hugsuð út frá þessum fjórum órjúfanlegum þáttum þar sem þeir fléttast saman á öllum stigum námsins. Eftir því sem nemendur eldast verður meiri áhersla á samhengi þar sem reynir á þroska, reynslu og þekkingu þeirra.
Menntun í list- og verkgreinum felst í því að nemendur vinna verklega og skapandi vinnu þar sem reynir á huga, hjarta og hönd. Námið felur í sér kerfisbundna þjálfun út frá ofangreindum þáttum í hverri námsgrein fyrir sig þar sem reynir á ólíka þætti í mismiklum mæli eftir eðli verkefna. Þannig geta nemendur notað öll skilningarvitin og aflað sér þekkingar í gegnum lestur, hlustun, skoðun, hreyfingu, efniskönnun, leik, tjáningu, lykt og smökkun og prófa sig áfram með hugmyndir sínar. Undir leiðsögn kennara eiga þeir að fá tækifæri til að þróa þessar hugmyndir byggðar á þekkingu á fjölbreyttan hátt, þjálfast í að koma þeim í verk og á framfæri við ýmis tækifæri. Í ferlinu gefast margvísleg tækifæri til ígrundunar og greiningar bæði á verkferlum, samskiptum og inntaki verka í persónulegu, menningarlegu og sögulegu samhengi. Lokaafurð er mikilvæg, s.s. að flytja tón-, dans- eða leikverk, sýna smíðis-, textíl- eða myndverk eða smakka og bera fram mat en af ofangreindu má sjá að vinnuferlið hefur síst minna vægi en lokaafurðin og í vinnuferlinu gefast fjölmörg tækifæri til að efla almennan þroska nemenda og einnig félagslegan þroska (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013).