Fræðimenn sem ég tengi við
Howard Gardner & fjölgreindarkenningin
Samkvæmt Gardner (1999) áleit hann að það ætti að gera listnám, verknám og íþróttanám jafn hátt undir höfði og viðurkenna það að allir einstaklingar hafa eitthvað til síns ágætis og að stuðla ætti að virkja hæfileika hvers og eins.
Howard Gardner (1999) flokkast til fræðimanna hugsmíðahyggjunnar. Hann setti fram fjölgreindarkenninguna sem niðurstöðu rannsókna sinna (Gardner, 1983). Hann færði rök fyrir því að greind manna væri hægt að flokka í níu svið sem allir hafi í einhverju mæli en mis miklu mæli. Fjölgreindarkenningin býður upp á möguleikann á færnikennslu með nemendum í greiningu á eigin styrkleikum og veikleikum. Hægt er að notast við sem kveikju. Styrkleikaspilið nýtist hér vel sem hjálpartæki fyrir nemendur í upphafsvinnu, í því er einnig byggt á að allir séu með alla þessa styrkleikum en í mismiklu mæli (Menntastefna Reykjavíkurborgar, 2023).
Erlu Sif Markúsdóttir og Lilja M. Jónsdóttir benda á að í rannsókn þeirra kemur fram að grunnforsenda árangurs í námi hjá börnum sé vellíðan (Erla Sif Markúsdóttir og Lilja M. Jónsdóttir, 2016). Rannsóknir hafa sýnt fram á tengingu milli félags- og tilfinningahæfniþátta og námsárangurs og vegna þess hafa áherslur verið dregnar fram um mikilvægi þeirra í skólastarfi (Zins, Weissberg, Wang og Walberg, 2004). Upphafsmenn jákvæðrar sálfræði eru Martin Seligman og Mihaly Csikszentmihalyi sem markvisst könnuðu þætti sem þóttu efla velferð og farsæld fólks (Seligman og Csikszentmihalyi, 2014).
Elliot W. Eisner & sköpunarmátturinn
Elliot W. Eisner Eisner (2002) hefur sagt að í vissum skilningi sé ekki hægt að kenna sköpunarmátt, en það megi svo sannarlega skapa aðstæður fyrir marga grundvallarþætti listarinnar til þess að þroskast. Svo sem að fínstilla heilbrigða skynsemi, öðlast sjálfstraust í verktækni, koma auga á samhengi og að öðlast skilning á list sem sögulegu og menningarlegu ferli og afurð. Það er hægt að skapa aðstæður sem kæfa sköpunarmátt og líka til að hlúa að honum. Þessar aðstæður auka líkur á að fólk geti nýtt sköpunargáfu sína. Það er heldur ekki hægt að kenna vísindi eða skapandi vísindalega hugsun, einungis er hægt að skapa aðstæður til að læra (Margrét Guttormsdóttir, 1998). Eisner segir að skapandi kennsla víkki sjóndeildarhring barna, gefi þeim tækifæri til að skoða viðfangsefni sín á fjölbreyttan hátt og að börn geti eflt þroska sinn í gegnum reynslu sína ásamt því að upplifa umhverfið á eigin forsendum (Eisner, 2002). Hann segir einnig að séu listir ekki inn í námsskrá skóla eru ungmenni í raun svipt möguleika á vissum þroska og telur að skólar séu stofnanir með margþætt hlutverk en eitt af því mikilvægasta er að þróa og efla hugann (Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, 1998).
Mihaly Csikszentmihalyi & flæðiskenningin
Mihaly Csikszentmihalyi Mihaly Csikszentmihalyi er þekktur fyrir rannsóknir sínar á sköpun og sköpunargáfu ásamt því að hafa mótað hugmyndir um flæði. Kenning Mihaly fjallar um það að þegar við erum að kljást við krefjandi verkefni, upplifum við gleði, sköpunarkraft okkar og týnum tímanum (Csikszentmihalyi, 1997). Hugflæði er þegar við erum það altekin af einhverju að við sogumst inn í það og gleymum öllu, áreynsluleysi sem margir hafa lýst sem þeir finna fyrir á augnablikum hugflæðis (Kuhlman, 2009).
John Dewey & verkhyggjan
John Dewey John Dewey (2000) er kenndur við það sem gjarnan hefur verið kallað verkhyggja. Það sem lýsir einna best því hugtaki er hegðunarheimspeki. Á bak við verkhyggjuna er meginhugsunin sú að gengið sé út frá því að maðurinn sé fyrst og fremst með hegðunarmynstur, því beri að skoða hugsanir og alla vitsmunalega starfsemi hennar út frá því hvort sú starfsemi leiði til góðs. Hægt er að segja að uppeldisfræði Deweys hafi slagorð sem er „Að læra með því að framkvæma“. Dewey taldi að nemendur lærðu ekki bara með því að taka við fræðslu og áreiti viðfangsefna heldur með því að framkvæma áþreifanleg viðfangsefni sem myndi leiða til dýpri skilnings(Dewey, 2000). Samkvæmt Dewey á nemandinn að vera í brennidepli og allt skólastarf að miðast við þarfir og áhuga hans. Hann var mjög andvígur staðlaðri menntun, að allir lærðu það sama á sama tíma. Skólinn átti að hans mati að vera nokkurs konar brú á milli barnsins og samfélagsins. Dewey bendir á að uppeldi eigi að vera víðtækt félagslegt ferli sem leiðir smám saman til þess að nemendur verða virkir þegnar í samfélaginu (Guðrún Friðgeirsdóttir og Margrét Jónsdóttir, 1995).
Diane Gossen og uppbyggingarstefnan
Frumkvöðull uppbyggingarstefnunnar Uppeldi til ábyrgðar er uppeldisfræðingurinn Diane Gossen. Diane Gossen hefur starfað við að þróa og kynna aðferð sína síðastliðin þrjátíu ár. Markmið Gossen er að hún vill að kennarar fræði nemendur sína um sjálfsstjórn og sjálfsaga. Stefnan kennir það með því að styrkja innri sálarstyrk nemenda í stað umbunar og hvetja þá til dáða (Real restitution, e.d). Hugmyndafræðin hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og á meðferð agamála. Hugmyndafræðin byggist á því að einstaklingurinn geti tekið sjálfstæðar, siðferðilegar ákvarðanir varðandi eigin hegðun þegar hann er laus undan skömm, hótunum, sektarkennd eða væntingum og loforðum um umbun og að hann fái tækifæri til að meta lífsgildi sín. Stefna Uppeldi til ábyrgðar hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum.
Jerome Bruner og uppgötvunarnám
Jerome Bruner og áherslur hans á uppgötvunarnám (e. learnig by discovery) byggja á að uppgötvunarnám sé áhrifaríka leið til að nemendum væru gefin tækifæri á að skipuleggja eigin upplifun þegar kæmi að reglum og tengslum gagnvart námi. Í grein Bruners The Act of Discovery (1961) fjallar hann um að uppgötvunarnám í kennslu gefi nemendum tækifæri í uppgötvun þekkingar sinnar ásamt því að byggja ofan á hana samtímis. Áhersla Bruner lagði töluverða áherlsu á innri hvata nemanda til þess að hann þróaði hæfileika í að kanna, uppgötva ásamt úrvinnslu verkefni (Cattaneo, 2017). Innri og ytri hvatar eru algjörar andstæður þar sem að einstaklingur með innri hvata ríkjandi er reynslan sem skiptir hann aðalmáli meðan einstaklingur með ytri hvata ríkjandi drífur sig áfram á útkomu verkefna eða vegna þrýstings frá einhverju í umhverfi hans (Ryan og Deci, 2000). Þróun félags og tilfinningahæfni er tengd uppgötvunarnámi þar sem þú byggir ofan á fyrri tilfinningar. Því er tilfinningagreind álitin segja mikið til um örlög í lífi einstaklings (Goleman, 2000) þar sem að einstaklingur með litla eða enga þekkingu á eigin tilfinningum sé ekki fær um að þekkja tilfinningar annarra sem dæmi að geta sýnt samúð eða sett sig í spor annarra í umhverfi sínu.
Lev Vygotsky og nærþroskabil
Lev Vygotsky setti fram kenningar um nærþroskabil (e.Zone of Proximal Development, ZPD). Sú kenning dregur fram að barn sé fært um að læra og ná árangri án aðstoðar á sumum sviðum en þurfi leiðbeiningu fullorðins eða jafnaldra sem náð hefur færni á því sviði sem það er að kljást við. Í riti Vygotsky (1978) Mind in society: The development og higher psycological process dregur hann fram þessar hugmyndir upp sem ákveðin skala sem hefur að geyma þrjú svæði. Þau svæði eru hugsun þar sem barnið getur án aðstoðar, barnið getur gert með aðstoð og barnið er ófært um framkvæmd með eða án hjálpar. Hugsun barns getur þó færst milli sviði að einhverju leyti en eðlileg þróun er að barnið færist áfram og hæfni þess eykst en til þess þarf barnið þó á stuðningi að halda. Stuðning sem gæti verið munnleg leiðsögn eða sýnikennsla að eimhverju leyti (Cook, J. og Cook, G., 2005). Vygotsky hélt því fram að í gegnum leik læri börn að skipuleggja hugsanir sínar og aðgerðir sem leiði til lærdóms í að stjórna eigin tilfinningum (Kroll, 2017).
William Glasser
William Glasser fjallar um að allir einstaklingar hafi fimm grunnþarfir sem uppfylla þarf á viðeigandi hátt til að draga úr eða koma í veg fyrir vanlíðan og erfiða hegðun hjá einstaklingnum. Grunnþarfirnar fimm eru ást og umhyggja, öryggi, frelsi, gleði og stjórn. Mikilvægastu þörfina mætti telja vera ástina og þörfina að tilheyra einhverjum. Áhersla aðferðar hans er að einstaklingurinn taki sjálfur ábyrgð á eigin hegðun, hafi framtíðaráætlun ásamt því að líta fram á veginn í stað þess að dvelja í liðnum atburðum (The William Glasser Institude, 2009).